ELLIÐAHVAMMUR

KJÚKLINGAR, VARPHÆNUR, BÝFLUGUR OG ÁVAXTATRÉ
Þorsteinn Sigmundsson og afkomendur hans eru með dæmigert lítið fjölskyldubú í Elliðahvammi

Þorsteinn Sigmundsson í Elliðahvammi í Kópavogi rekur fjölskyldubú með afkomendum sínum.  Börnin hans, Aðalheiður og Sigmundur, starfa við búið ásamt mökum sínum og börnum.

Bara skúr, grjót, holt og móar
Eiginkona Þorsteins, Guðrún Alísa Hansen, lést í árslok 2010. Saman áttu þau þrjú börn og ólu upp það fjórða. Afkomendur þeirra eru nú um 30 talsins.
„Ég er ekki alveg búinn að jafna mig á því að missa hana Alísu. Mér finnst hún alltaf vera hérna einhverstaðar. Við byrjuðum mjög ung að vera saman og við unnum saman, bjuggum saman, vorum alltaf bara eins og samgróningar. Við byrjuðum hérna í gömlu ónýtu húsi árið 1964. Vatnslaust, vegasambandslaust og símasambandslaust. Bara skúr, grjót, holt og móar. Landið er tveir og hálfur hektari og hver fermetri er nýttur mjög vel. Það eru steyptir kjallarar undir húsunum. Nýtt líka neðanjarðar. Það var eitt gamalt íbúðarhús þegar við komum hérna, mjög illa á sig komið. Það hús var síðast notað sem upptökuheimili, bráðamóttaka fyrir kornabörn. Það voru þessir erfiðu tímar hérna á Íslandi, það var upplausn, það var náttúrulega stríðið og los í fólki og óregla og mikið að gera hjá barnaverndarnefndum að reyna að leysa þetta. Það er umdeilanlegt hvernig þeim tókst það. Húsið hafði verið í eigu ríkisins, svo við keyptum það af þeim. Svo byrjuðum við bara fljótlega í búskap. Við vorum bæði áhugasöm um búskap og að reyna að finna okkur
eitthvað að gera hérna en unnum fyrir utan heimilið dálítið fyrstu árin með þessu.“

Konurnar suðu allan mat fram í rauðan dauðann
„Ég er fæddur á Bergstaðastræti 28b í Reykjavík og 1949 fluttu foreldrar mínir í Kópavog þar sem þau  voru svona frumbyggjar, landnemar, og tóku mig með. Við frumbyggjarnir tókum þátt í að búa til íþróttafélag og pólitík og ungmennafélög, og líka dansnámskeið. Við vorum í því að byggja kirkju, leggja vatn og rafmagn, allt var ógert og engir peningar til, þannig að fólkið sjálft var að gera þetta.“

Þetta var náttúrulega ótrúlega frumstætt í byrjun, þessi kjúklingarækt og fóðrið sem við notuðum í kjúklingana var stundum bara einhverjir brauðafgangar og afgangar úr kjötvinnslunni eða bakaríinu eða mötuneytinu og þessu var slátrað bara í anddyrinu á fuglahúsunum sjálfum, bara á hnjánum eins og sagt er. Þetta var nú bara líkara því sem maður sér úti í Kalkútta á Indlandi. Þetta er sá tími sem Íslendingar sjóða matinn sinn og það fékk enginn matareitrun þá. Það var allt soðið í tvo eða þrjá tíma. Ég minnist þess ekki að það hafi verið bara til. Konurnar, eins og móðir mín, þær suðu allan mat fram í rauðan dauðann. Fiskurinn datt af beinunum.“

Eplarækt gæti alveg orðið aukabúgrein á Íslandi
„Við byrjuðum nokkrir um þúsaldamótin að þróa býflugnarækt til hunangsframleiðslu og að vera með býflugur á Íslandi sem búgrein eða hliðarbúgrein. Það er svona að sjást út úr því. Við höfum mjög stutt sumar og það má ekkert út af bera til að þær geti byggt sig upp fyrir veturinn. Svo er ég með svolitla ávaxtarækt hérna, kannski 2.000-3.000 epli og svo kirsuber, plómur, perur og hitt og þetta, allskonar ávexti og jarðarber. Við reynum að borða mikið af þessu sjálf og svo seljum við svona stundum. Eplarækt gæti alveg orðið aukabúgrein á Íslandi. Það er ekki útilokað. Hún er stunduð í Finnlandi og náttúrulega í Noregi, og í Rússlandi og Síberíu og norðarlega í Kanada. Ég er bæði með ávaxtaræktina inni og úti. Það hafa komið góð ár á Íslandi og mikil eplauppskera.“