MATREIÐSLA OG STEIKINGARTÍMI KJÚKLINGAKJÖTS

Mjög mikilvægt er að gæta hreinlætis þegar fuglakjöt er eldað. Vökvi úr kjötinu má aldrei snerta grænmeti eða aðra ferska matvöru.
Við eldun á heilum kjúklingi ber að hafa í huga að hitinn sé ekki of hár, því þá er hætt við að kjötið verði of þurrt. Mátulegur hiti er um 170°C og svo má hækka hitann í lok steikingartímans til að fá fallegan lit á kjúklinginn. Þumalputtareglan er 45-60 mínútur á hvert kíló við 170°C. Sígilt ráð er að ausa af og til soði á kjúklinginn á meðan hann er eldaður. Stórir kjúklingar þola lengri steikingartíma, því þá er meiri fita í kjötinu sem gerir þá mjúka og safaríka. Ef kjúklingurinn er fylltur þarf hann aðeins lengri tíma.
Þegar kjúklingur er grillaður er best að brúna hann fyrst á grillinu og snúa oft á meðan, en færa síðan ofar í grillið og láta kjötið „malla“ þar í um 30 mín. eða þar til það er gegnsteikt.
Úrbeinaðar bringur eru magurt kjöt og þurfa þær því aðeins styttri steikingartíma. Oftast er steikingartími á kjúklingaréttum með bringum í ofni u.þ.b. 25-30 mín. við 170°C. Ef bringa er brúnuð á pönnu er gott að lækka hitann og klára eldun í um 20 mín., eða setja í eldfast mót í ofn í jafnlangan tíma. Best er að grilla kjúklingabringur við meðalhita í um 20 mín.
Læri og leggir þurfa aðeins lengri eldunartíma.