MATREIÐSLA OG STEIKINGARTÍMI KALKÚNAKJÖTS

_DSC2072-EditSteikingartími kalkúnakjöts er mismunandi og fer alfarið eftir því hvort hann er heill eða í bitum.

Mjög mikilvægt er að gæta hreinlætis þegar fuglakjöt er eldað. Vökvi úr kjötinu má aldrei snerta grænmeti eða aðra ferska matvöru.

Alltaf skal gegnsteikja kalkúnakjöt, en muna að bringurnar eru magurt kjöt og geta því þornað við of langa steikingu eða á grilli. Við steikingu á kalkúnabringum er miðað við 30-40 mínútur á hvert kg í 170°C heitum ofni. Gott getur verið að brúna bringurnar fyrst á pönnu, en miða þá við aðeins styttri steikingartíma. Magurt kjöt er gott að hægelda við lágan hita, t.d. 140°C í u.þ.b.  50-60 mín. Miða skal við kjarnhitann 71°C.

Kalkúnalæri og -leggi í ofnrétti er gott að elda við lágan hita, 160°C, í um 1 1/2
klst.

Á heilum fylltum kalkún er steikingartími miðaður við u.þ.b. 40-45 mín./kg við 160°C. Steikingartími er aðeins styttri eða 30 mín./kg ef fuglinn hefur ekki verið frystur.
Mjög gott og jafnvel nauðsynlegt er að nota kjöthitamæli við eldun, því ofnar og grill geta verið misjöfn. Alltaf skal miða við kjarnhitann 71°C á fullsteiktu kalkúnakjöti.

Kalkúnn er mun einfaldari í eldun en marga grunar. Á vef Reykjabúsins eru góðar leiðbeiningar um ferlið frá afþíðingu til framreiðslu á heilum kalkún.