FUGLARNIR OKKAR
Hvort kemur á undan; hænan eða eggið? Þeirri spurningu verður ekki svarað hér – aðeins sagt undan og ofan af hinum ýmsu skeiðum á lífsferli kjúklinga og kalkúna, ásamt aðbúnaði þeirra, heilbrigði og umönnun.
Frá eggi til unga
Ísfuglsbændur fá alla sína unga til eldis frá útungunarstöð sem rekin er samhliða Reykjabúinu. Allur kjúklinga- og kalkúnastofn fyrir ungaframleiðsluna er alinn á Reykjabúinu. Allar stofnhænur og -hanar ganga frjáls á gólfi og hænurnar verpa í varphreiður.
Góður aðbúnaður og umhirða
Góður aðbúnaður fuglanna er nauðsynlegur þegar ala á heilbrigða og væna fugla. Hús þurfa að vera vel einangruð og þola vel tíðan þvott á milli eldishópa. Loftræsting þarf að vera góð til að tryggja gott og hreint loft hjá fuglunum. Hita þarf húsið upp í 31°C í upphafi eldistíma og síðan lækka hitann þegar líður á eldistímann. Nægur og óheftur aðgangur þarf að vera að fóðri og vatni. Fóðrið, sem allt er innflutt, er hitameðhöndlað til að koma í veg fyrir að bakteríur berist úr því í fuglinn. Íslensku fuglarnir fá nóg af góðu og hreinu neysluvatni. Gæta þarf mikils hreinlætis hjá fuglunum til að ekki berist smit inn til þeirra.
Engin fúkkalyf
Fuglarnir ganga frjálsir á gólfinu og á það er borið þykkt lag af hefilspónum, svo að fuglarnir fái mjúkt, hreint og þurrt undirlag. Fuglarnir fá engin fúkkalyf á eldistímanum og er heilbrigði og þrif íslenskra alifugla með því besta sem gerist í heiminum.
Aldur kjúklinga við slátrun er 4-5 vikur en þá er hann (í neytendapakkningu) um 1,25 kg að meðaltali. Kalkúnar eru 8-12 vikna gamlir þegar þeim er slátrað. Þá er fuglinn á bilinu 6-10 kg í neytendapakkningu.
Fúkkalyfjanotkun stórt heilbrigðisvandamál í Evrópu
Ofnotkun fúkkalyfja er stórt heilbrigðisvandamál í Evrópu. Bent hefur verið á að 25.000 dauðsföll á ári í löndum Evrópusambandsins megi rekja til ofnotkunar á fúkkalyfjum í landbúnaði. Ofnotkun fúkkalyfja er þekkt í verksmiðjubúskap erlendis, sérstaklega í svína- og alifuglaræktun sem er margföld að umfangi miðað við sambærilegan búskap hérlendis. Mikil fúkkalyfjanotkun er þekkt í þeim Evrópulöndum þar sem framleiðsla er mjög mikil, t.d. á Spáni, Ítalíu, í Þýskalandi, Ungverjalandi og víðar. Vegna þrengsla og mikillar umsetningar verða dýrin viðkvæmari en ella fyrir sýkingum, sem hafa neikvæð áhrif á vaxtarhraða. Þannig er í raun verið að nota fúkkalyf sem vaxtarhvetjandi efni. Lyfin eru sett saman við fóður og vatn. Dýrin ná hins vegar ekki að losa sig að öllu leyti við þessi lyf áður en þeim er slátrað og því berast þau áfram til manna við neyslu kjötsins. Lyfin hlaðast síðan smám saman upp í mannslíkamanum sem myndar ónæmi fyrir fúkkalyfjum.
Ísfuglsbændur nota engin fúkkalyf við eldi sinna fugla.
Miklar og öflugar sóttvarnir
Eftir að fuglahópnum hefur verið slátrað hefjast þrif og sótthreinsun áður en nýr hópur daggamalla unga kemur í húsið. Strangar kröfur eru um hreinlæti og þrif á húsum – og sýnataka er mjög mikilvægur þáttur í alifuglaeldi.
Tekin eru sýni úr eldishópum til að fyrirbyggja að salmonella, campylobacter og aðrar sýkingar berist til neytenda. Sýnin eru tekin einni viku fyrir slátrun, þannig að niðurstaða liggur fyrir áður en fuglunum er slátrað. Einnig eru tekin sýni í slátruninni sjálfri í sama tilgangi. Miklar og öflugar sóttvarnir á Íslandi hafa skilað sér í heilbrigðum fuglum og lítilli sem engri smittíðni neytenda. Árangur Íslendinga á þessu sviði þykir eftirtektarverður og einstakur í alifuglarækt.
Sýnatökuvottorð frá rannsóknaraðila fylgja með öllum reikningum Ísfugls þegar vara er seld. Á vottorðinu kemur fram frá hvaða búi kjötið kemur og staðfesting á niðurstöðum campylobacter- og salmonellusýnatöku. Þetta eru viðskiptavinir Ísfugls afar ánægðir með.