NESLÆKUR

ÞÆGILEGT AÐ VERA TVEIR Í ÞESSU
Kristján Karl Gunnarsson og Ögmundur Jónsson reka félagsbúið Neslæk í Ölfusi

utihus

Reksturinn er sem stendur í leiguhúsnæði að Bræðrabóli, í gömlu húsi þar sem nútímatækni er af skornum skammti, en nú er í undirbúningi að byggja nýtt eldishús í landi Rauðalæks.

Neslækur er félagsbú þeirra Kristjáns Karls Gunnarssonar að Rauðalæk og Ögmundar Jónssonar í Ásnesi í Ölfusi. Þeir félagar hófu kjúklingarækt árið 2013 í leiguhúsnæði á Bræðrabóli en nýtt 500 fermetra hús í landi Rauðalækjar var tekið í notkun vorið 2015. Húsið er með nýjum búnaði og hefur skilað góðum afurðum. Ársframleiðslan er nú um 120 tonn af kjúklingum. Leigu á gamla húsinu á Bræðrabóli var hætt þegar það nýja var tekið í notkun.

Rætur í Ölfusinu
Kristján Karl býr ásamt fjölskyldu sinni að Rauðalæk sem er lögbýli út úr Gljúfurárholti. Hann og eiginkona hans, Íris Judith Svavarsdóttir, byggðu íbúðarhús þar árið 2000. Íris er lærður sjúkraþjálfari, íþróttakennari og lýðheilsufræðingur. Nú keyrir hún í vinnu til Reykjavíkur, en hún er starfandi ráðgjafi í starfsendurhæfingu og vinnur fyrir Virk starfsendurhæfingarsjóð hjá BSRB-félögum. Áður hafði hún unnið í um fimmtán ár á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. „Íris á ættir að rekja í Ölfusið en ég er uppalinn hérna, kom þegar ég var fimm ára í Gljúfurárholt. Ég var þar alla tíð með annan fótinn með Dagbjarti Hannessyni sem átti jörðina, hann var með sauðfjárbú hérna, um 500 kindur. Ég var uppalinn að mestu leyti hjá honum en pabbi minn bjó á Tálknafirði og þar stundaði ég sjómennsku nokkrar vertíðir.“

Fjölskyldan á Rauðalæk; Íris Judith Svavarsdóttir, synirnir Konráð Karl og Dagbjartur, og Kristján Karl Gunnarsson.

Engir nýgræðingar í kjúklingarækt
Kristján Karl og Ögmundur eru ekki algjörir nýgræðingar í kjúklingarækt þó að stutt sé síðan þeir stofnuðu eigið fyrirtæki í greininni, því báðir hafa þeir unnið fyrir Jón Magnús og Kristínu á Reykjum. Þá er Ögmundur sonur Jóns í Hjallakróki og tók hann þátt í bústörfunum með föður sínum á uppvaxtarárunum.

Kristján hefur unnið ýmis störf til sjós og lands og vann t.d. á réttargeðdeildinni á Sogni í 13 ár þangað hún var flutt til Reykjavíkur og starfar nú á sambýli á Selfossi. „Kjúklingarnir eru ekki fullt starf heldur hliðarbúgrein. Það er þægilegt að vera tveir í þessu og skipta með okkur vinnunni. Við getum hagrætt því. Svo eigum við nokkrar kindur. Ég hætti nú með þær á tímabili en byrjaði svo aftur fyrir nokkrum árum.“

Eftirlit tvisvar á dag
Kristján heldur einnig nokkra hesta. „Bara til gamans og náttúrulega til að smala. Það er farið í leitir á hverju ári upp á Hellisheiði, upp að Nesjavallalínunni þar sem hitalögnin er og í kringum Hengilinn og alla leið niður í Hveragerði. Við eigum 28 kindur núna, þeim hefur smáfjölgað, við byrjuðum með fimmtán. Það stendur til að hafa þær svolítið fleiri, mig langar til að fara upp í svona 50–100 í rólegheitum. Þegar maður fer að fá meiri áburð á tún frá kjúklingahúsunum er hægt að rækta meira. Ég á heilmikið land hérna sem ég get ræktað upp. Það er draumurinn.“ Kristjáni líkar ágætlega við kjúklingabúskapinn. „Þetta hentar mér vel. Sérstaklega þegar vel gengur. Þegar við vorum í gamla húsinu þurfti maður bara að leggja svolítið meira á sig. Eftir að nýja húsið kom hefur vinnan minnkað  um helming að minnsta kosti. Það er aðallega að þrífa húsið og moka það. Það er líka léttara og allt annað að hafa þetta á hlaðinu hjá sér. Miklu betra að labba heldur en vera alltaf að keyra. Við förum alltaf tvisvar á dag í eftirlit. Svo erum við líka með eftirlit í gegnum tölvuna. Það koma viðvaranir um leið og eitthvað gerist, hitinn dettur niður eða eitthvað þá er það komið um leið. Kjúklingar eru viðkvæmir fyrir hitabreytingum og ef það flæðir.“

Rauðalækur + Ásnes = Neslækur
Ögmundur Jónsson býr í Ásnesi ásamt konu sinni, Idu Lön, og syni þeirra Jónatan. Ögmundur er alinn upp á Hjallakróki í Ölfusi frá 14 ára aldri. Ida er dönskukennari í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
„Við keyptum landið af Kristjáni og Írisi. Ásnes er sem sagt út úr Rauðalæk. Þess vegna heitir félagið Neslækur; Rauðalæk og Ásnesi er spyrt saman. Við fluttum að Hjallakróki þegar ég var 14 ára, annars ólst ég upp í Hveragerði fram að því. Pabbi var með garðyrkjustöð þar. Ég er Ölfusingur í húð og hár, ömmur og afar eru héðan, nema föðuramma mín, hún er færeysk.“ Föðurafi og -amma Ögmundar bjuggu að Vorsabæ en Hveragerðisbær stendur á landi Vorsabæjar.

Ögmundur Jónsson og Kristján Karl Gunnarsson: „Kjúklingarnir eru ekki fullt starf heldur hliðarbúgrein. Það er þægilegt að vera tveir í þessu og skipta með okkur vinnunni.“

Ögmundur Jónsson og Kristján Karl Gunnarsson: „Kjúklingarnir eru ekki fullt starf heldur hliðarbúgrein. Það er þægilegt að vera tveir í þessu og skipta með okkur vinnunni.“

Ekki mannfrekur búskapur
Ögmundur er menntaður húsasmíðameistari. „Hitt er svona aukageta, jafnvel þó að við höfum stækkað við okkur, því þetta er svo mikið tölvustýrt. Þetta er ekki mannfrekur búskapur. Vatn, fóður og loftræsting, þetta er allt saman sjálfvirkt. Þetta er mest eftirlit á eldistíma og að passa upp á að allt sé í lagi. En það er ekki það, við erum tvo tíma á dag í húsunum. Það skiptist í okkar tilfelli þannig að Kristján fer á morgnana og ég á kvöldin. Svo þarf að moka út þegar skipt er um eldishóp, það er u.þ.b. tveggja daga vinna við að senda kjúklinga í sláturhús og undirbúa fyrir næsta hóp. Þetta gerist á um sex vikna fresti og svo kemur nýr hópur inn.“ Kjúklingana fær Neslækjarbúið frá Útungun sem er á Reykjum, en þaðan koma allir ungar Ísfuglsbænda.

Höfum stundað hestamennsku af töluverðum krafti
„Kjúklingarækt er þægileg búgrein. Mín hugmynd er að reyna að hafa einhverja atvinnu heima og þurfa ekki alltaf að vera í burtu. Þá er þetta ágætis hlutastarf. Þó að það þurfi að sinna því þá er maður á svæðinu og getur hliðrað svolítið til og þá er eitthvað sem rekur heimilið áfram.“ Ögmundur og Ida eru með svolítið af hestum sér til skemmtunar og ekki má gleyma hundinum Tobý. „Við höfum búið saman síðan 1999 og höfum stundað hestamennskuna af töluverðum krafti, en eftir að peyinn kom til sögunnar þá breyttist það svolítið. En það kemur svo bara um leið og hann fer að eira sér meira við það. Við höfum gaman af hestaferðum og svo að vera með hross á húsi og í sportreiðum á veturna.“

Ögmundi þykir gott að geta stundað húsasmíðar og kjúklingarækt jöfnum höndum.

Ögmundi þykir gott að geta stundað húsasmíðar og kjúklingarækt jöfnum höndum.