REYKJABÚIÐ

„ALLTAF AÐ LEITA AÐ EINHVERJU SEM MÁ BETRUMBÆTA“
Reykjabúið – öflugt fjölskyldubú í Mosfellsbænum

Jón Magnús og Kristín ásamt sonum sínum; Sverri og Jóni Magnúsi yngri.

Jón Magnús og Kristín ásamt sonum sínum; Sverri og Jóni Magnúsi yngri.

Jón Magnús Jónsson og Kristín Sverrisdóttir búa á Suður-Reykjum I í Mosfellsbæ. Þau eiga fjögur börn; Hrefnu, Maríu Helgu, Jón Magnús og Sverri. Dæturnar eru flognar úr hreiðrinu en synirnir taka mikinn þátt í búskapnum. Þau Jón Magnús og Kristín reka stofnfuglarækt fyrir kalkúna og kjúklinga Ísfuglsbænda á Reykjabúinu og eru einnig með kjúklinga- og kalkúnaeldi annars staðar. Síðasta viðbótin við rekstur þeirra hjóna var svo þegar þau tóku alfarið yfir rekstur Ísfugls árið 2012. Jón Magnús er fæddur á Suður-Reykjum þar sem fjölskylda hans hefur verið í alifuglarækt síðan á fyrri hluta síðustu aldar. Kristín er Reykvíkingur og kynntist sveitastörfum frá barnsaldri hjá móðursystur sinni á Oddgeirshólum í Flóa.

Guðmundur Kolbeinn Finnbogason sinnir eldishúsum Reykjabúsins í Ölfusinu.

Guðmundur Kolbeinn Finnbogason sinnir eldishúsum Reykjabúsins í Ölfusinu.

Sameiginlegir hagsmunir og nýting fjárfestinga
Á Reykjum eru bara stofnfuglar, foreldrar kalkúnanna og kjúklinganna, þ.e. framleiðsla frjóeggja. Eitt af stærstu hlutverkum Reykjabúsins er að reka stofnfuglaframleiðsluna alfarið fyrir Ísfuglsbændur.
„Kalkúna- og kjúklingaeldi okkar fer fram á níu stöðum á Suður- og Suðvesturlandi en við stjórnum öllu héðan. Starfsmennirnir á staðnum annast fuglana og svo fer oft mannskapur frá okkur til þeirra í ýmsa aðstoð og þjónustu. Mikið af starfseminni byggist á því að nýta fjárfestingu hjá bændum, eins og eldri gripahús á borð við fjós, refahús og svínahús. Þetta er góð lausn fyrir alla; að koma þessum húsum í notkun og skapa vinnu,“ segir Jón Magnús.
Ársframleiðsla Reykjabúsins er um 750 tonn af kjúkling og 250 tonn af kalkún og þar starfa nú um fimmtán manns í misháum stöðugildum. „Það eru margir á launaskrá en þar af eru margir í hlutastarfi, t.d. flestir sem sjá um eldið á útstöðunum. Guðmundur Kolbeinn Finnbogason sinnir eldishúsum okkar í Ölfusinu; á Bakka í, Auðsholti, Lambhaga og á Hjalla, og er í fullu starfi. Hann er einn okkar reyndasti starfsmaður, enda búinn að starfa með okkur í yfir tuttugu ár,“ segir Kristín. Kalkúnaeldi er einnig í Helludal í Bláskógabyggð hjá Val Lýðssyni og Sætúni á Kjalarnesi. Kjúklingaeldi á vegum Reykjabúsins er svo þar að auki á Fögrubrekku við Akranes, í Sætúni á Kjalarnesi, að Sjávargötu 1 í Sandgerði og á Heiðarbæ II í Þingvallasveit hjá Sveinbirni Einarssyni.
„Hér á Reykjabúinu erum við með fimm starfsmenn og einn á skrifstofunni – og svo við Jón Magnús.  Síðan er alltaf gaman þegar krakkarnir okkar taka þátt í bústörfunum með okkur.“

1080

Nokkrar af stofnhænum Reykjabúsins.

Ákveðin og sterk sýn
Þau Jón Magnús og Kristín skipta með sér verkum. „Þó að ég sé titlaður framkvæmdastjóri hér á bæ þá er þetta allt samvinna okkar hjóna,“ segir Jón Magnús. „Ég er náttúrulega sérfræðingur í lifandi fuglum, ræktuninni, þannig að ég hef aldrei viljað fara langt frá því. Ég get fengið mannskap í flest önnur störf í rekstrinum en ég get ekki fengið marga sem gera það sem ég geri,“ útskýrir hann. „Kristín sér um öll peningamál á Reykjabúinu og stússast í mörgu. Hún hefur beitt sér mjög mikið fyrir eflingu í gæðamálum, bæði hér og í Ísfugli. Hennar sterkasta hlið er þessi ákveðna og mikla sýn á hvernig hún vill hafa hlutina. Við viljum standa heiðarlega að framleiðslunni, viljum hafa allt sem snýr að fuglum og umhverfi til fyrirmyndar. Og við erum ekki komin í mark ennþá. Við vitum hvert við stefnum í þessum búskap, maður er alltaf að leita að einhverju sem má betrumbæta. Þetta er eilífðarverkefni.“

Aldrei unnið annars staðar
Jón Magnús og Kristín tóku formlega við Reykjabúinu árið 2005 þó að þau hafi unnið við búið frá því að þau luku námi 1989. Jón Magnús hefur reyndar aldrei unnið annars staðar en á búinu og hjá Ísfugli sem unglingur. Bæði stunduðu þau nám við framhaldsdeildina á Hvanneyri en Jón Magnús lauk svo BS-gráðu í alifuglarækt í Madison, Wisconsin í Bandaríkjunum. Kristín lauk aftur á móti BS-gráðu í almennri búfjárrækt.

Feðgarnir Jón Magnús og Sverrir hvor með sína hænuna.

Feðgarnir Jón Magnús og Sverrir hvor með sína hænuna.

Þrír hlekkir í einni keðju
„Það er til stofnfundargerð hérna frá Hreiðri frá 1946,“ upplýsir Jón Magnús, „sem þeir skrifa undir afi, Bjarni Ásgeirsson mágur afa og nokkrir aðrir. Þá er í raun og veru stofnað hérna hlutafélag utan um það að framleiða varphænur, daggamla unga fyrir bændur og selja. Áður hafði amma verið með hænur. Þá er þessi starfsemi hérna formlega hafin. Pabbi var þá í Bandaríkjunum að læra alifuglarækt og kemur inn í þetta stuttu seinna.“

Mikil breyting varð þegar farið var út í að flytja inn holdafuglinn. Faðir og nafni Jóns Magnúsar, Jón Magnús Guðmundsson, fór til Bandaríkjanna í kringum 1960 að kynna sér kjúklingarækt og kom svo heim og byggði þá sláturhúsið sem var í byggingunni niðri við ána á Suður-Reykjum og þar rak hann sláturhús til 1978 þegar Ísfuglssláturhúsið var byggt. Þá kom fyrsta tæknivædda sláturhúsið og kjötvinnslan, þá hefst í raun kjötvinnsla á kjúklingi í landinu en áður hafði slátrun farið fram við mjög frumstæðar aðstæður. Áður var kjúklingur bara seldur heill.
„Á þessum tímamótum hættir Reykjabúið í sláturhúsabransanum og verður bara unga-, kjúklinga- og kalkúnaframleiðandi. Svo kaupum við fyrirtækið af systkinum mínum 2005. Svo kemur Ísfugl inn í þetta aftur árið 2012 þegar við kaupum hann. Við erum samt ennþá í okkar búrekstri en Ísfugl er okkar fyrirtæki og við samkeyrum þessi fyrirtæki mjög náið. Hagsmunir heildarinnar gilda,“ segir Jón Magnús. Kristín segir að fyrirtækin fari vel saman. „Við framleiðum ungana sem fara til þess að framleiða kjúklinga og kalkúna sem
verða afurðir Ísfugls. Þetta eru þrír hlekkir í einni keðju.“

Jón M. Guðmundsson á Reykjum, faðir Jóns Magnúsar, var einn af frumkvöðlum alifuglaræktar á Íslandi. Hér sést hann með fugl í fangi fyrir utan Hreiður, sem var forveri Ísfugls.

Erlendu kollegarnir brosa
Á Reykjabúinu hófst kalkúnarækt um 1947, fyrst í smáum stíl en síðan varð veruleg aukning upp úr 1960 þegar Jón Magnús eldri flutti inn fyrstu kalkúnastofneggin. Æ fleiri kjósa nú að elda kalkún að amerískum sið og leggja leið sína upp að Reykjum til að ná í jóla- og áramótakalkúninn. Á síðustu árum hefur kalkúnaræktin farið stigvaxandi og nú er kalkúnn orðinn einn vinsælasti maturinn á borðum Íslendinga um jól og áramót. „Þegar ég sæki ráðstefnur erlendis um kalkúnarækt og hitti kollega mína þá brosa þeir bara þegar ég segi þeim hvað þetta er lítið bú hjá okkur. Víða erlendis eru kalkúnaframleiðendur mjög stórir; sumir framleiða kannski á einum degi það sem ég framleiði á einu ári,“ bætir Jón við.
Jón Magnús og Kristín hafa lifað tímana tvenna í greininni. Þegar þau hófu að starfa við búið að loknu námi voru miklir erfiðleikar í rekstrinum: „Þegar maður hugsar til baka skilur maður ekki hvernig maður nennti þessu – en við gerðum það samt. Síðan hafa skipst á skin og skúrir í fuglabransanum í gegnum þessi nærri 30 ár sem við höfum verið í þessu.“

Hugmyndirnar kvikna í kringum skapandi starf
Hjónin eru sammála um að nauðsynlegt sé að eiga sér áhugamál þegar staðið er í krefjandi rekstri. Þau eru bæði áhugasöm um hestamennsku og eiga hesta, stunda svolitla ræktun og hafa gaman af ferðalögum á hestum.
Jón Magnús hefur verið félagi í Karlakór Kjalnesinga frá stofnun kórsins og var formaður hans um skeið. Kristín hefur hins vegar hallað sér að málaralistinni og er með vinnuaðstöðu í gamla fjósinu á hlaðinu á Suður-Reykjum.
„Svo er það söngurinn, hann á hug manns allan yfir veturinn og Kristín málar. Söngurinn og myndlistin – það er svo gott að hafa eitthvað til að hvíla hugann frá rekstrinum,“ segir Jón Magnús. „Ég hugsa að maður sé opnari fyrir nýjum hugmyndum, þær kvikna oft í kringum skapandi starf. Maður er að skoða ákveðna þætti, fara út fyrir rammann og það er svo gott í svona rekstri,“ segir Kristín.

Draumurinn að vera með fuglakjötsbúð
Heimasala hefur verið í gegnum tíðina í smáum stíl að Suður-Reykjum. „Við fórum út í það fyrir nokkrum árum að vera með formlega opnunartíma og bjóða sérstaklega upp á ferskar afurðir, aðallega þó kalkúnakjöt. Það verður sífellt vinsælla,“ segir Kristín. „Okkur langar til að þróa það enn meira, vera með meira vöruúrval og meira í kringum þetta og hugsanlega með okkar kjúklingaafurðir líka, þær fást ekki hérna í sveitinni. Draumurinn er að vera með fuglakjötsbúð. Við heimsækjum slíkar búðir gjarnan á ferðalögum erlendis. Í Bandaríkjunum eru karlar í afskekktum byggðum sem búa til allt úr kalkún; beikon, spægipylsu, pylsur og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Við brennum í skinninu að fara út í þetta en maður er alltaf svo upptekinn,“ segir Jón Magnús.

Ungar nýskriðnir úr eggi og komnir inn í eldishús – í fylgd með Sverri.

Ungar nýskriðnir úr eggi og komnir inn í eldishús – í fylgd með Sverri.

Flestir eru jákvæðir
Reykjabúið hefur þá sérstöðu að vera mjög nálægt þéttbýlinu. Jón Magnús segir að það gangi ljómandi vel, ónæði af rekstri húsanna sé í raun ekkert og ekki er um stóra einingu að ræða. Núningspunkturinn sé þegar skít er dreift á vorin, því fylgir náttúrulega lykt en það er bara einu sinni á ári. „Þetta eru svona fjórir til fimm dagar af 365 á ári,“ bætir Kristín við. „Flestir nágrannarnir eru meðvitaðir um það að gott sé að nýta þennan lífræna áburð á tún og til grænmetisræktar hjá nágrönnum okkar. Það er sjálfbærnihugsunin; að nota áburðinn í nærumhverfinu frekar en innfluttan tilbúinn áburð. Ég myndi segja að í 90% tilfella í kringum okkur sé fólk mjög jákvætt. Við höfum alltaf kappkostað að valda sem minnstu ónæði. Við leggjum mikinn metnað í að hafa umhverfis- og gæðamál í toppstandi og erum stöðugt að vinna í þeim málum. Við viljum taka tillit til okkar nærumhverfis, enda er það allra hagur.“