HEIÐARBÆR I
ALLT Á SAMA HLAÐINU; KINDUR, HESTAR, KJÚKLINGAR, KRAKKAR OG KETTIR
Jóhannes Sveinbjörnsson og Ólöf Björg Einarsdóttir eru með fjölbreyttan búskap í Þingvallasveitinni
Að Heiðarbæ I í Þingvallasveit búa hjónin Jóhannes Sveinbjörnsson og Ólöf Björg Einarsdóttir. Þau eiga þrjú börn; Svanborgu, Sveinbjörn og Steinunni. Á Heiðarbæ er rekið blandað bú með sauðfé, kjúklinga og silungsveiði í Þingvallavatni. Þá eru þau Jóhannes og Björg með nokkra hesta, aðallega fyrir smalamennskurnar og svo hefur fjölskyldan gaman af að fara í hestaferðir. Síðan kemur eitt og eitt folald á tveggja til þriggja ára fresti. Á bænum eru einnig hundar og kettir.
Við sauðfjárbúskap frá barnsaldri
Björg vinnur alfarið á búinu en Jóhannes er í hlutastarfi hjá Landbúnaðarháskólanum við kennslu og rannsóknir. Hann sinnir því á veturna og er alveg heima á sumrin. Jóhannes er með doktorspróf í fóðurfræði og Björg mastersgráðu í búfjárfræði. „Sumir segja að það sé vísasta leiðin til að allt sé í rugli að vera svona mikið menntaður – en við höfum nú líka reynsluna. Við erum alin upp við búskap bæði. Björg er alin upp á sauðfjárbúi í Dölunum. Við höfum bæði verið við sauðfjárbúskap frá því við vorum smákrakkar. Það er aðalbúgreinin hérna. Að vísu má þó segja að þetta sé álíka stórt í veltu hjá okkur, kjúklingarnir og sauðféð, en náttúrulega ákaflega ólíkar búgreinar. Það er miklu meiri vinna við féð en á móti kemur í kjúklingaræktinni að þar er miklu meira aðkeypt; mjög stór hluti veltunnar fer í fóður, ungakaup, spæni, kyndingu og fleira. Þannig að framlegðin er lág á hvert kíló en mörg kíló framleidd á hverja vinnustund. Í sauðfjárræktinni er meiri framlegð á hvert kíló en miklu meiri vinna á bak við
hvert kíló. Það hefur margt breyst í sauðfjárræktinni en það er samt ekki hægt
að ganga nærri eins langt þar og í kjúklingaræktinni í að vélvæða.“
Skemmtilegt að vera í sambandi við kúnnann
„Það kemur vel út hjá okkur að reka þessar ólíku búgreinar saman. Við getum notað skítinn í áburð á tún og nýræktir. Við fjölskyldan sjáum nánast alfarið um vinnuna sjálf. Líka þegar við erum að senda í sláturhús, við sjáum að mestu um tínsluna sjálf. Við reynum náttúrulega að gera þetta þannig að skepnunum líði allan tímann sem best. Við erum svolítið að selja sjálf bæði silung og lambakjöt og aðeins líka kjúklinga. Okkur langar að þróa það áfram og þá er gott að vera með fleira en eitthvað eitt. Það er líka svolítið skemmtilegt að vera í sambandi við kúnnann. Ég held að bændur mættu alveg vera það í meira mæli, því það er alltaf svolítil hætta á því að bændur sem frumframleiðendur verði undir í þessari keðju. Það eru oft stóru smásöluaðilarnir sem ráða verðinu og hvað fólk kaupir. En með því að vera með beina sölu markar maður sér ákveðinn bás. Það er gott finnst mér og spennandi.“
Auðveldaði ættliðaskipti í búskapnum
Hjónin á Heiðarbæ I tóku við kjúklingabúinu árið 2008 af foreldrum Jóhannesar, Sveinbirni Jóhannessyni og Steinunni Guðmundsdóttur. Kjúklingahús var byggt þar árið 1997. „Það var í raun um það leyti sem við tókum við fjárbúinu. Þetta var eiginlega allt úthugsað. Við tókum við um áramótin 1998-´99. Árið áður var þetta kjúklingahús byggt. Reyndar höfðu verið hérna kjúklingar í smáum stíl, ábyggilega í 10-15 ár þar á undan, í gamla bænum, og þar var nú ekki mikil tæknivæðing. Það höfðu reyndar verið varphænur hérna fyrir þann tíma, þannig að alifuglarækt hefur verið stunduð hérna meira og minna í langan tíma. Þegar ákveðið var að við Björg myndum taka við var ákveðið að byggja þetta kjúklingahús sem þau pabbi og mamma myndu þá vera með áfram í svona tíu ár. Þau voru þá bara um sextugt, eða pabbi sextugur og mamma tæplega það. Til að þau hefðu eitthvað fyrir sig áfram og svo tókum við við því þegar þau voru bæði komin á eftirlaun og þau héldu svo áfram silungsveiðinni í Þingvallavatni. Ættliðaskiptin gengu því vel fyrir sig.“
Jóhannes og Björg hafa nú einnig að mestu tekið við veiðunum og vinnslunni en Steinunn, móðir Jóhannesar, hjálpar til við flökun og fleira. Sveinbjörn lést haustið 2012.
Með minnstu kjúklingabúum
„Á Heiðarbæ I er eitt fuglahús sem tekur 2.800 fugla, framleiðslan er 30-35 tonn á ári. Fuglarnir eru yfirleitt á bilinu 1,6 til 1,8 kíló. Búið er með minnstu kjúklingabúum. Það má kannski segja að svona lítið bú gefi aðeins meiri möguleika á einhverri sérhæfingu. Ef það þarf til dæmis að framleiða einn hóp af stórum kjúklingum þá er tiltölulega auðvelt fyrir okkur að bregðast við því – og stundum höfum við gert það. Okkur finnst skemmtilegt ef við fáum að gera kjúklingana aðeins stærri. Aðalmálið er að þetta er góður partur
af okkar búi, það passar vel með hinu. Þetta er allt hérna á sama hlaðinu;
kindur og hestar og kjúklingar og krakkar og kettir – bara skemmtilegt.“