HJALLAKRÓKUR
ÖLFUSINGUR Í HÚÐ OG HÁR
Jón Ögmundsson ræktar kjúklinga og grænmeti í Hjallakróki
Jón Ögmundsson rekur búið að Hjallakróki þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni, Elínu Hörpu Jóhannsdóttur, og tveimur dætrum hennar, Andreu Ösp og Katrínu. Elín Harpa starfar sem gjaldkeri á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Jón er Ölfusingur í húð og hár og hefur búið þar alla sína tíð. Hann er alinn upp að Vorsabæ sem foreldrar hans áttu en Hveragerði stendur á landi Vorsabæjar. Elín Harpa er frá Hveragerði. Þau eru því bæði heimafólk og kunna vel við sig í Ölfusinu.
Öryggi og velferð dýranna tryggð
Jón keypti Hjallakrók árið 1989 en þá hafði ekki verið þar búskapur frá því á sjöunda áratugnum. Áður var Jón með garðyrkjustöð í Hveragerði. „Ég byrjaði um tvítugt með gróðurhús og var í því frá 1977 til 2000.“ Árið 1994 hóf Jón svo að rækta kjúklinga. Uppbygging að Hjallakróki hefur verið stöðug síðan. Kjúklingabúið er vel búið nýjustu tækni og í hentugu húsnæði. Því er öryggi og velferð dýranna tryggð eins og best verður á kosið. Ársframleiðsla búsins er um 260 tonn og eru fuglarnir í fjórum eldishúsum.
Íslendingar ekki einir um að þykja rófurnar góðar
Jón segir þetta þægilegan búskap en hann vinnur við búið ásamt einum starfsmanni. Hann hefur ekki sagt alveg skilið við grænmetisræktunina, því jafnframt kjúklingaeldinu ræktar hann gulrófur, kartöflur, gulrætur og fleira grænmeti, um 90-100 tonn á ári.
Jón segir ekki rétt að Íslendingar séu einir um að borða rófur; Finnar, Skotar og Norðmenn gæði sér líka á þessu rótargrænmeti sem við Íslendingar
kunnum svo vel að meta, en í Danmörku t.d. er gulrófan eingöngu nýtt í dýrafóður.
Búgreinarnar tvær sem stundaðar eru að Hjallakróki eru ólíkar en passa ágætlega saman í rekstri. Tilkostnaður við grænmetisræktina er tiltölulega lítill en hún er mannaflsfrek öfugt við kjúklingaræktina sem krefst viðamikilla húsa, búnaðar og mikils fóðurkostnaðar. Hún krefst hins vegar ekki mikils mannafls og er þægileg að því leyti. Kjúklingaskíturinn er síðan ljómandi góður áburður sem nýtist vel við ræktun grænmetisins.