Slide background

FYRIRTÆKIÐ

Að baki fyrirtækinu standa traustir og metnaðarfullir bændur sem ala kjúklinga og kalkúna og leggja inn í Ísfugl. Þeir leggja þannig grunninn að gæðahráefni fyrirtækisins. Bændurnir hafa starfað lengi í ræktuninni og hafa því mikla reynslu og metnað í framleiðslu sinni.

1461Reykjabúið stærsti framleiðandinn
Stærstu framleiðendur Ísfugls eru bændur Reykjabúsins, en þeir rækta bæði kjúklinga og kalkúna. Þar hófst bæði kjúklinga- og kalkúnarækt á Íslandi. Á Reykjabúinu hefur verið stunduð kalkúnarækt allt frá árinu 1948 og er það eina íslenska búið sem ræktar kalkúna. Á Reykjabúinu er að auki hafður allur kjúklinga- og kalkúnastofn fyrir ungaframleiðslu Ísfuglsbænda.

Í sátt við náttúru og nærumhverfi
Eldishús Ísfuglsbænda eru dreifð á bæjum í Ölfusi, Mosfellsbæ, Þingvallasveit, Biskupstungum og Sandgerði. Ýmist hafa eldri gripahús verið innréttuð fyrir kjúklinga og kalkúna eða ný hús byggð. Þessi dreifðu eldishús falla vel inn í umhverfið. Mengun er vel undir mörkum og allur skítur er nýttur til áburðar í nærumhverfinu. Þessi tilhögun styður við fjölbreytni í búskap og byggð í dreifbýli. Markmiðið er að starfsemin sé í sem bestri sátt við náttúru og nærumhverfi.

Flest eru eldishúsin í minni kantinum og framleiðslueiningarnar því frekar litlar og dreifðar. Fyrir vikið næst góður árangur hvað varðar heilbrigði fuglanna. Þetta auðveldar einnig viðbrögð við sýkingum ef þær koma upp.

Dýravelferð og heilbrigði að leiðarljósi
Dýravelferð og heilbrigði er haft að leiðarljósi í öllu ferlinu. Umgangast þarf fuglinn af natni svo fuglinum líði vel og sé ekki stressaður. Yfirsýn bóndans og góð umhirða fuglanna er almennt betri í litlum húsum en stórum. Ísfuglsbændur nota engin fúkkalyf við eldi kjúklinganna og kalkúnanna. Þannig verður til gott hráefni.

Strangt eftirlit og þjálfað fólk
Flutningstími fugla til og frá eldishúsum er einungis 45 til 60 mínútur, nema úr því húsi sem lengst er frá sláturhúsinu, þaðan tekur flutningur um 90 mínútur. Fuglarnir eru handtíndir í þar til gerð búr þegar þeir eru fluttir til slátrunar. Lyftarar og vélknúin tæki koma aldrei inn til fuglanna. Ísfugl leggur mikið upp úr því að við fuglatínslu starfi aðeins þjálfað fólk undir ströngu eftirliti, því mjög mikilvægt er að fuglinn verði fyrir eins litlu álagi og hægt er.

Ísfuglsbændur hafa með sér mikið samstarf og deila reynslu og þekkingu. Allir starfa þeir samkvæmt gæðahandbók sem er uppfærð reglulega. Bændur starfa undir eftirliti Matvælastofnunar og þurfa starfsleyfi heilbrigðisyfirvalda viðkomandi sveitarfélaga.